Í seinustu köflum guðspjallanna fjögurra má lesa um innihald daganna; pálmasunnudags, skírdags, föstudagsins langa og páskadags. Mér finnst gaman að lesa textana og bera saman sjónarhorn höfundanna, margt er sameiginlegt en einnig nokkur atriði sem eru ólík. Jesú var fagnað á pálmasunnudag samanber Lúkas 19. 28.-40, Matteus 21 .1-11, Markús 11 1-11 og Jóhannes 12 12-19. Um undirbúning páskamáltíðar er í Lúkas 22.7-13 Eftir að hafa verið að lesa og íhuga guðspjöllin undanfarið, sérstaklega Matteus og Lúkas hef ég komist að nokkru sem ég vissi en núna sé ég það mjög skýrt.
Hver var boðskapur Jesú og hvernig snerti hann fólk? Hver er boðskapur hans í dag og hvernig snertir það okkur?
Jesús talar margt í dæmisögum;
- Hann talar um fögnuð og hryggð.
- Hann talar um konur og karlmenn. – í dæmisögum og í lífinu. Jafnræði
- Hann talar um unga og gamla – Í þjóðfélagi þar sem mikil virðing var fyrir eldra fólki talar hann um yngra fólk- Lúkas 22. 26
- Hann talar um ríka og fátæka. – Hann þráir að snerta alla.- Lasarus
- Hann talar um innfædda og útlendinga – Samverska konan
- Hann talar um húsbændur og þjóna – Lúkas 22 26-27
Fyrir rúmum fjörutíu árum vorum við hjónin stödd á Péturstorgi í Róm að hlusta á páskaboðskap páfa ásamt tugum þúsunda annarra. Þar var gleðistemning, fólk með blöðrur og sölubásar opnir. Okkur varð hugsað til Íslands þar sem allt var lokað og meiri alvarleiki. En á þeim tíma var allt lokað á föstudeginum langa og páskadegi. Núna er staðan þannig að engar messur eða samkomur verða þessa daga og verður það öðruvísi en áður.
Konurnar sem komu að gröfinni á páskadagsmorgni voru mjög hissa – Hann er upprisinn og þegar upprisan er íhuguð er hún eitt mesta undur og kraftverk sögunnar og hornsteinn boðskapar kristinnar trúar. Í flestum kristnum kirkjudeildum eru páskar mesta hátíð kirkjuársins enda nefndu kirkjufeðurnir páskana “Festum festorum” eða hátíð hátíðanna.
Ég hef verið um páska í Englandi og farið með vinum mínum í kirkju á páskadegi. Þar heilsaði fólk hvert öðru með kveðjunni; He is risen / Hann er upprisinn. Það var svo fallegt og persónulegt að fá þessa kveðju, sérstaklega frá fólki sem ég þekkti ekki.
Þóranna M. Sigurbergsdóttir
Formaður Aglow í Vestmannaeyjum