Ísrael

Ísrael og málefni Mið-austurlanda

Hvað ef þeir hefðu samþykkt Ísrael 1948?
Eftir Abdulateef Al-Mulhim


“Höfundur fjallar um samspil stjórna arabaríkjanna við Ísrael frá árinu 1948 til okkar daga.”

Ég kynntist fyrst Palestínumönnum þegar ég hóf skólagöngu mína í Al-Hassa í Saudi-Arabíu. Þeir voru framsæknir og greindastir frá fyrsta bekk og uppí unglingaskóla. Þegar ég gekk í SUNY-sjómannaskólann (1975 – 1979) las ég margar bækur um Palestínumenn, araba og gyðinga. Ég hef lesið sérhverja þá blaðagrein sem fjallar um hinar margvíslegu breytingar sem Palestínumenn hafa klúðrað varðandi lausnir á vanda sínum, sérstaklega frá Camp David samningnum milli Egypta og Ísraels. Bæði hef ég séð og lesið um líf Palestínumanna í Bandaríkjunum og öðrum stöðum. Þeim vegnar vel á öllum sviðum sem þeir vinna á.
Á sama tíma fylgdist ég með því að arabaríkin sátu á botninum varðandi kannanir á menntun og þjóðfélagsuppbyggingu. Og ég spyr mig: Hvað ef Palestínumenn og arabar hefðu samþykkt Ísrael þann 14. maí 1948 og viðurkennt tilverurétt þess? Hefði arabaheimurinn orðið stöðugri, lýðræðislegri og meiri að gæðum?

Hefði Ísrael verið viðurkennt 1948

Hefði Ísrael verið viðurkennt 1948 þá hefðu Palestínumenn getað fengið frelsi frá innantómum loforðum arabískra einræðisherra sem sögðu þeim að flóttamenn þeirra kæmust aftur í heimahagana þaðan sem þeir flúðu, eftir að öll arabaríki væru búin að frelsa landið og hrekja Ísrael í djúp sjávarins. Sumir leiðtogar araba notfærðu sér bágt ástand Palestínumanna til að kúga eigin þegna til að tryggja sjálfum sér völd.
Frá 1948 átti arabískur stjórnmálamaður auðvelda leið til frama, vildi hann verða stjórnmálahetja og fá stuðning. Hann þurfti aðeins að hrópa eins hátt og hann gæti þá ætlan sína að gjöreyða Ísrael, án þess að undirbúa nokkurn hermann til verksins (málskrúðið er ódýrt).

Hefði Ísrael verið viðurkennt 1948

Hefði Ísrael verið viðurkennt 1948 þá hefði ekki skapast grundvöllur fyrir byltingu í Egyptalandi 1952 gegn Farouk konungi og engin árás hefði verið gerð á Egyptaland 1956 af Frökkum, Bretum og Ísraelum. Ekkert 6 daga stríð hefði brotist út í júní 1967 og stærð Ísraels hefði ekki orðið meiri og við arabar hefðum ekki þurft á öllum þessum ályktunum Sameinuðu þjóðanna að halda um að biðja Ísraela að hverfa aftur til landamæranna fyrir 1967. Ekkert stríð hefði verið háð milli Ísraels og Egyptalands sem olli meiri kostnaði og mannfalli hjá Egyptum en Ísraelum.

Eftir 6 daga stríðið 1967.

Eftir 6 daga stríðið 1967 varð Ísrael hernaðarbandalagsaðili Bandaríkjanna. Fram að því voru Bandaríkin ekki jafn náin Ísrael og eftir 1967 eins og margur arabi heldur. Ísraelar börðust þá aðallega með frönskum og breskum vopnum, af því að bandarískir embættismenn höfðu neitað þeim um nútímalegri og tæknivæddari vopnakerfi, og flugvélum eins og F-4 Phantom þotum.
Hörmungar Palestínuaraba voru einnig notaðar til að skapa glundroða í annars stöðugum ríkjum eins og Írak, sem missti konungdóminn í hendur valdagráðugs einræðisherra. Írak er auðugt af hráefnum, vatni, frjósömum jarðvegi og fornminjum. Herinn, undir stjórn Abdul Karim Qassim, drap Faisal II. konung og fjölskyldu hans. Blóðsúthellingarnar í Írak héldu áfram og arabaríkin fengu að reyna meira ofbeldi og uppreisnir. Ein þeirra var gerð 1960 af hersveit sem send var til að hjálpa Palestínu. Í staðinn fór hún til Bagdad og tók völdin. Fáum árum síðar sagðist Saddam Hussein ætla að frelsa Jerúsalem með því að taka Kuwait; hann notaði eymd Palestínumanna sem afsökun fyrir að ráðast inní það land.

Hefði Ísrael verið viðurkennt 1948

Hefði Ísrael verið viðurkennt 1948 hefði aldrei orðið uppreisn 1968 í öðrum stöðugum og ríkjum araba – Líbíu þar sem Idris konungi var steypt og Muammar Gaddafi tók við völdum.
Annars staðar urðu byltingar eins og í Sýrlandi, Jemen og Súdan. Ástæður þessara byltinga voru sagðar ástand Palestínumanna.

Ríkisstjórn Gamal Abdel Nassers í Egyptalandi var vön að kalla hin arabaríkin “bakgarðinn sinn” og Nasser reyndi að bylta ríkisstjórnum þeirra landa með því að nota fjölmiðla Egypta og her til að gera árásir á suðurlandamæri Saudi-Arabíu frá herstöðvum Egypta í Jemen.
Jafnvel Íran sem er ekki arabaríki hefur nýtt sér Palestínuvandamálið til að draga athygli þjóðarinnar frá vaxandi óróa innanlands. Ég minnist þess að Ayatollah Ruhollah Khomeini hafi lýst því yfir að hann ætlaði að frelsa Jerúsalem í gegnum Bagdad, og Mahmoud Ahmadinejad hótar Ísrael ógnum og skelfingu þó svo að ekki einu sinni flugeldi hafi verið skotið frá Íran til Ísraels.

Nú eru Palestínuarabarnir einir á báti; sérhvert arabaríki er önnum kafið í eigin vandamálum: Egyptaland, Túnis, Líbía, Súdan, Jemen, Sýrland, Jórdanía, Sómalía, Alsír, Líbanon og ríki við Persaflóa. Núna hafa Arabaríkin sett Palestínu-Ísraels-glímuna á pásu.

Greinin birtist í : “The international Jerusalem Post” 25-31.mars 2011 /
http://mbl.is/

Þýðandi er Snorri Óskarsson/almulhimnavy@hotmail.com
Höfundur er fyrrverandi flotaforingi Saudi-Arabíu. Hann býr í Alkhobar í Saudi-Arabíu